Hvað er endurskoðun?

Um endurskoðun

Endurskoðendur verða þess oft varir í störfum sínum að bæði viðskiptavinir og almenningur þekkir ekki nægjanlega til endurskoðunar og hvað í henni felst. Hér á eftir er umfjöllun um þá helstu þætti sem snúa að endurskoðendum og endurskoðun ársreikninga í þeim tilgangi varpa betra ljósi á tilgang endurskoðunar.

Hvað er endurskoðun?

Endurskoðun ársreikninga felst í kerfisbundinni öflun gagna og mat á þeim gögnum í þeim tilgangi að láta í ljós álit á þeim ársreikningi sem um ræðir. Með áliti sínu leggur endurskoðandinn álit sitt á áreiðanleika gagna og hvort framsetning þeirra sé í samræmi við lög, settar reikningsskilareglur eða önnur skilyrði. Álit endurskoðandans er sett fram í áritun hans sem fylgir ársreikningum.

Markmið endurskoðunar er að gera endurskoðendanum kleift að gefa álit á reikningsskilum, svo að lesendur ársreikninga geti betur treyst þeim upplýsingum sem þar koma fram. Það er á ábyrgð stjórnenda að semja reikningsskilin og að tryggja að innihald þeirra og framsetning sé í samræmi við lög og viðeigandi reikningsskilaðaferðir. Í minni fyrirtækjum aðstoðar endurskoðandinn stjórnendur þó oft við uppsetningu ársreiknings og útreikninga einstakra liða í ársreikningum ss. skatta. Ábyrgðin hvílir þó ávallt hjá stjórnendum.

Með áritun sinni staðfestir endurskoðandinn að reikningsskilin séu í öllum veigamiklum atriðum í samræmi við viðeigandi lög og reikningsskilareglur og að endurskoðun hans hafi farið fram í samræmi við þær reglur sem gilda um starfshætti endurskoðenda .

Löggiltir endurskoðendur

Til að starfa við endurskoðun og gefa áritun á endurskoðuð reikningsskil þarf viðkomandi að hafa öðlast löggildingu í endurskoðun. Löggilding er veitt af fjármálaráðherra að því gefnu að uppfylltar séu þær kröfur sem kveðið er á um í lögum um endurskoðendur. Má þar helst nefna menntunarkröfur sem kveða á um meistaranám í endurskoðun og reikningsskilum, þriggja ára starfsþjálfun við endurskoðun og  að hafa staðist sérstakt löggildingarpróf. Einnig eru gerðar kröfur til löggiltra endurskoðenda um endurmenntun til þess að viðhalda réttindum sínum. Endurskoðendur eru skylduaðilar að Félagi löggiltra endurskoðenda (FLE).

Endurskoðendur sem taka að sér verkefni um endurskoðun verða vera til þess hæfir. Er þá ekki síst vísað til þess hvort þeir uppfylli þær óhæðiskröfur sem gerðar eru til endurskoðunar. Óhæði er grundvöllur starfa endurskoðandans því álit hans verður að vera hafið yfir allan vafa. Þannig getur endurskoðandinn ekki tengst fyrirtækinu sem hann endurskoðar óeðlilegum böndum sem gætu varpað rýrð á óhæði hans. Einnig er þjónustu og ráðgjöf sem hann veitir fyrirtæki sem hann endurskoðaðar settar verulegar skorður í siðareglum sem settar hafa verið endurskoðendum.

Takmörkun endurskoðunar

Endurskoðun er háð takmörkunum og þar af leiðandi hún gefur hún ekki fullvissu um að ársreikningurinn sé að öllu leyti réttur. Það er þó markmið endurskoðunarinnar að endurskoðandinn fái nægjanlega vissu þess efnis að reikningsskilin séu laus við verulegar villur, hvort sem er að völdum sviksemi eða vegna mistaka.

Lykilhugtak er hér hvað telst verulegt og hvað ekki. Í því samhengi setja endurskoðendur sér mikilvægismörk, sem eru bæði notuð við skipulagningu endurskoðunar og við mat á áhrifum af óleiðréttum skekkjum sem hafa komið fram við endurskoðunina. Samkvæmt mikilvægisreglunni eru upplýsingar í ársreikningi taldar mikilvægar ef þær hafa áhrif á þær efnhagslegu ákvarðanir sem lesendur taka á grundvelli upplýsinga í ársreikningi.

Algengur misskilningur um endurskoðun og ársreikninga

Það er misskilningur að halda :

.. að ársreikningur hafi að geyma fullkomnlega réttar upplýsingar. Stjórnendur fyrirtækis bera ábyrgð á skipulagi bókhalds og innra eftirlits. Gott skipulag getur þó ekki komið í veg fyrir minniháttar skekkjur sem ekki eru leiðréttar áður en reikningsskilin eru lögð fram. Einnig byggja reikningsskilin á þeim reikningsskilareglum sem um þau gilda. Þær reglur geta sett stjórnendum skorður auk þess sem ákveðnir liðir í ársreikningi byggja á mati og mat getur verið byggt á upplýsingum sem eru síbreytanlegar.

... að áritun endurskoðanda sé trygging fyrir því að ársreikningur sé fullkomnlega réttur. Endurskoðun grundvallast á úrtaksaðferðum  en er ekki skoðun á öllum gögnum. Þannig er ekki víst að óverulegar skekkjur komi fram við endurskoðunina. Skipuleg sviksemi getur einnig komið í veg fyrir að skekkjur uppgötvist við endurskoðunina. Þannig er alltaf sú hætta fyrir hendi að veruleg villa sé til staðar, þrátt fyrir að endurskoðun sé skipulögð og framkvæmd  í fullu samræmi við starfsaðferðir endurskoðanda og þær reglur sem um þá gilda.

.. að eitt af hlutverkum endurskoðandans sé að koma upp um fjárdrátt, svik eða annað ólögmætt athæfi. Það er ábyrgð félagsstjórnar að annast um og tryggja að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sé með nægjanlega tryggum hætti. Það er ekki markmið endurskoðunarinnar að uppgötva sviksemi nema í þeim tilgangi að komast að raun um hvort verulegar skekkjur séu í reikningsskilunum vegna sviksemi. Finni endurskoðandinn hins vegar vísbendingar um svik eða annað ólögmætt athæfi ber honum að tilkynna það til viðeigandi stjórnanda hjá fyrirtækinu.

Hvaða fyrirtæki þurfa endurskoðun?

Það er alls ekki svo að öll fyrirtæki þurfi að leggja fram endurskoðaðan ársreikning. Skv.  lögum um ársreikninga eru ákveðin stærðarmörk sem segir til um ársreikningar hvaða fyrirtækja séu endurskoðunarskyldir. Stærðarmörkin eru a) 240 millj. í veltu, b) 120 millj. í heildareignir og c) 50 árstörf og gildir endurskoðunarskyldan ef tveimur af þessum þremur stærðarmörkum er náð 2 ár í röð. Einnig eru félög sem hafa skráð hlutabréf eða skuldabréf á skipulögðum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins endurskoðunarskyld. Þar til viðbótar eru ákvæði í ýmsum lögum og reglum um endurskoðun ákveðinna tegundir fyrirtækja.

Ársreikningar sem ekki eru endurskoðaðir þurfa samt sem áður að vera áritaðir af löggiltum endurskoðendum eða hæfum skoðunarmönnum þar sem álit er gefið á því hvort viðkomandi ársreikningur gefi glögga mynd í samræmi við reikningsskilareglur og sé í samræmi við lög og reglur.

Munurinn á óendurskoðuðum og endurskoðuðum ársreikningum

Löggiltir endurskoðendur árita stærstan hluta ársreikninga íslenskra félaga. Þó er alls ekki svo að um endurskoðaða reikninga sé að ræða í öllum tilfellum enda teljast þeir reikningar eingöngu endurskoðaðir þar sem endurskoðun hefur farið fram. Áritun endurskoðandans ætti að bera með sér hvort endurskoðun hafi fram eða ekki.

Þegar endurskoðun hefur ekki farið fram er endurskoðandinn ekki að gefa álit á áreiðanleika þeirra gagna sem ársreikningurinn byggir á. Lesandi reikningsins getur ekki lagt sama traust á óendurskoða reikninga eins og hann gerir til endurskoðaðra reikninga. Í raun og veru er óendurskoðaður reikningur sem áritaður er af endurskoðanda engu frábrugðin reikningi sem áritaður er að öðrum til þess hæfum sérfræðingi enda felst vinna endurskoðandans í þeim tilfellum fyrst og fremst í aðstoð við gerð ársreiknings.

Þó gilda sérstakar reglur sem löggiltum endurskoðendum ber að fara eftir við aðstoð við gerð ársreikninga. Þar er m.a. kveðið á um hvað skuli koma fram í áritun endurskoðandans í slíkum tilfellum. Má þar nefna að ef endurskoðandinn uppfyllir ekki hæfisskilyrði sem gerð væru til hans ef um endurskoðun væri að ræða ber hann segja svo frá í áritun sinni.

 

Ofangreind umfjöllun er að hluta til byggð á bæklingi Félags löggiltra endurskoðenda "Endurskoðandinn: Umhverfi, hlutverk, ábyrgð" sem gefin var út af félaginu í janúar 2011.